Asbest er frábært efni sem nota má til einangrunar og eldvarna. Olía er líka frábært efni sem nota má til að knýja vélar og tæki. Vísindamenn hafa tengt asbest við steinlungu og krabbamein. Vísindamenn hafa líka tengt olíunotkun við loftslagsbreytingar og lungnasjúkdóma. Neikvæð áhrif asbests koma oft í ljós löngu eftir notkun. Neikvæð áhrif olíubrennslu munu sum koma í ljós löngu eftir brunann. Stór hluti vísindamanna telur notkun asbests umhverfislega neikvæða. Stór hluti vísindamanna telur notkun olíu umhverfislega neikvæða. Til eru vísindamenn sem draga neikvæð áhrif asbestnotkunar í efa. Til eru vísindamenn sem draga neikvæð áhrif olíu á lofthjúpinn í efa. Til er umhverfisvænni tækni sem leysti að mestu asbestið af hólmi. Til er umhverfisvænni tækni sem leyst getur olíu að mestu af hólmi.
Áhættustýring
Þessi samanburður á asbesti og olíu er áhugaverður í ljósi þess að að vísindamenn hafa nú skilmerkilega gert okkur grein fyrir þeirri áhættu sem bruni olíu og annars jarðefnaeldsneytis hefur á lofthjúpinn. Þrátt fyrir það eru allskonar snillingar að draga þetta í efa og heimta að við drögum úr eða sleppum öllum loftslagsaðgerðum. Að draga eitthvað í efa er svo sem í góðu lagi, og í raun eðli vísinda, en að leggja til aðgerðaleysi er svo miklu alvarlegra. Óháð því hvað á endanum er rétt eða rangt þá er einfaldlega minni áhætta fólgin í því grípa til aðgerða en að gera ekki neitt. Alveg eins og við fjárfestum í gríðarlegum eldvörnum fyrir húsnæði þó að líkurnar á bruna séu sáralitlar. Þetta gerum við vegna þess að ef það kviknar í þá yrðu afleiðingarnar án eldvarna svo miklu verri. Af hverju eru ekki einhverjir þarna úti að halda á lofti t.d. hugmyndum prófessors Sergei Jargin sem dregur skaðleg áhrif asbest í efa? Jú, vegna þess að þó að fræðilegur möguleiki sé á því að Sergei hafi rétt fyrir sér þá er það varla áhættunnar virði að fara flytja aftur inn asbest í stórum stíl, eða hvað?
Í fararbroddi
Nei, sú var nefnilega tíðin að Íslendingar voru í farabroddi í virkri umhverfisáhættustýringu. Það vita ekki allir að Ísland var fyrst þjóða í heiminum til að banna innflutning á asbesti vegna heilsufarsáhættu árið 1983. Síðan fylgdu fjölmargar þjóðir í kjölfarið en enn finnast lönd þar sem asbestnotkun er heimil. Margir supu hveljur þegar tilkynnt var um fyrirhugað bann á nýskráningum bensín- og dísilbíla á Íslandi árið 2030. Er það bann svo fáránlegt í ljósi frumkvæðis Íslands í asbestmálum?
Höfundur er sviðsstjóri orkuskipta og loftsslagsmála hjá Orkustofnun.