Bensín- og olíunotkun á einkabíla í Bandaríkjunum hefur aukist mikið milli ára

Bensín- og olíunotkun á einkabíla í Bandaríkjunum hefur aukist mikið milli ára og hefur aldrei verið meiri. Þetta er talin ein meginorsök hækkandi heimsmarkaðsverðs á olíu auk deilu Breta og Írana vegna 15 breskra sjóliða sem eru fangar í Íran.
Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hækkað alla þessa viku og fór í 69,14 dollara fyrir tunnu á markaði í Lundúnum í gær. Það hæsta verð á Brent Norðursjávarolíu frá því í september í fyrra. Í New York hækkaði olíuverð um 63 sent og var tæpir 67 dollarar. Sérfræðingar segja að deilan vegna sjóliðanna 15 hafi skyggt á aðra meginorsök sem eigi eftir að valda því að olíuverð haldi áfram að hækka næstu mánuði þó svo að deilan um sjóliðanna verði leyst. Þetta sé vaxandi eftirspurn eftir bensíni og díselolíu á bílaflota Bandaríkjamanna.

Sérfræðingar segja að eftirspurn eftir bensíni og díselolíu sé nú með mesta móti í Bandaríkjunum. Það sem af er þessu ári hefur eftirspurnin aukist um meira en 500.000 tunnur á dag miðað við árið í fyrra sem er aukning um 2,6%. Þetta sé mjög mikið t.d miðað við hagvöxt í Bandaríkjunum sem hefur verið að meðaltali 1,6-1,8% síðustu tíu árin. Þá hafi það nú gerst að eftirspurn eftir bensíni hafi í fyrsta sinn farið yfir 9 miljón tunnur í janúar sem er að öllu jöfnu mánuður þar sem einkabílinn er minna hreyfður vegna ófærðar. Þá hefur eftirspurn eftir díselolíu aukist enn meira eða um 14%. Þessi eftirspurn muni þrýsta heimsmarkaðsverði upp næstu mánuði þó deilan við Íran verði leyst.

Heimild: ruv.is