Samkvæmt umhverfisskýrslu Bílaleigu Akureyrar hefur meðalútblástursgildi bifreiða leigunnar farið úr 189 CO2 g/km árið 2007 niður í 179 CO2 g/km 2009. Slíkur árangur skiptir verulegu máli í flota sem telur yfir 2000 bifreiðar á sumrin. Bílaleigan hefur einnig hlotið ISO vottanir.
Bílaleiga Akureyrar hlaut þann 13. janúar síðastliðinn vottun samkvæmt gæðastaðlinum ÍST ISO 9001 og umhverfisstjórnunarstaðlinum ÍST ISO 14001. Á undanförnum árum hefur fyrirtækið vaxið og er í dag stærsta bílaleiga landsins. Stærð fyrirtækisins og fjöldi starfsstöðva gerir það að verkum að gott skipulag og samræmi í störfum er verðmætt. Gæðastjórnunarkerfi er upplagt tæki til að skilgreina umgjörð starfseminnar, skipuleggja vinnuferla og þjálfa starfsmenn í réttum vinnubrögðum.
Stjórnendur Bílaleigu Akureyrar ákváðu því að taka afgerandi forystu á þessu sviði og koma upp vottuðu gæða og umhverfisstjórnunarkerfi. Vottunin tekur til reksturs bílaleigu í Skeifunni 9, þar með talið útleigu, hreinsunar, viðhalds og viðgerða á bifreiðum og aukabúnaði. Einnig tekur hún til starfsstöðva fyrirtækisins á Reykjavíkurflugvelli og í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Bílaleiga Akureyrar er fyrsta bílaleigan á Íslandi til að hljóta vottun samkvæmt ÍST ISO 9001 og ÍST ISO 14001 og stjórnendur fyrirtækisins eru þess fullvissir að gæða- og umhverfisstjórnunarkerfið komi til með að styrkja stoðir fyrirtækisins á krefjandi markaði. Það er von þeirra að Bílaleiga Akureyrar muni með fordæmi sínu verða öðrum bílaleigum og fyrirtækjum í ferðaþjónustu góð fyrirmynd.