Karl Bretaprins ætlar að leggja einkaþotum og -þyrlum og taka sér frekar far með áætlunarflugfélögum, lestum eða sparneytnum bílum. Hann segir nóg komið af orðræðu, nú þurfi að láta verkin tala.
Frá og með febrúar verður dagskrá prinsins skipulögð með þeim hætti að hann geti í sem flestum tilfellum ferðast á umhverfisvænan máta, að sögn talskonu Karls. Hann ætlar samt ekki að ferðast á neinum smátíkum til að spara bensínið, en Jagúar og Land Rover bifreiðar hans verða útbúnar með vélum sem geta notað lífræna díselolíu. Einnig verða fundnar endurnýjanlegar orkuveitur fyrir heimili hans og hallir, auk þess sem þar verður komið fyrir orkusparandi viðarofnum til hitunar.
Elísabet II, móðir Karls, tók almenningslest í fyrsta skipti fyrir stuttu en hún hefur ekki tilkynnt um viðlíka áætlanir og sonur hennar.