Mánudaginn 17. september næstkomandi mun nýtt vistvænt eldsneyti, E85 Líf etanól, bjóðast í fyrsta skipti á eldsneytisdælu hérlendis, en Brimborg stendur að tilraunaverkefni til framtíðar um etanólvæðingu á Íslandi. Olíufélagið Olís tók að sér að flytja hið nýja eldsneyti til landsins fyrir Brimborg og sér einnig um dreifingu. Brimborg hefur þegar flutt inn tvær bifreiðar sem ganga fyrir etanóli en það eru Ford C-Max 1.8 Flexifuel og Volvo C30 1.8 Flexifuel. Eitt af markmiðum verkefnisins er könnun á kostnaði við dreifingu og sölu á eldsneytinu og bílunum. Þar leikur gjaldastefna stjórnvalda stórt hlutverk og hefur þegar náðst sá áfangi að eldsneytið verður undanþegið gjöldum, en erindi um niðurfellingu gjalda á etanól-bifreiðar bíður afgreiðslu íslenskra stjórnvalda.
Fyrsta E85 Líf etanól dælan vígð
Jan Brentebraten, framkvæmdastjóri og sérfræðingur í málefnum vistvænna orkugjafa fyrir bifreiðar og stefnumótunar á því sviði hjá Ford í Evrópu mun ásamt forsvarsmönnum Brimborgar og Olís vígja E85 dæluna í Álfheimum þann 17. september næstkomandi og fylla formlega á tankinn á fyrsta etanólbílnum á Íslandi, Ford C-Max 1.8 Flexifuel. Viðstaddir þetta fyrsta skref í etanólvæðingu Íslands verða að auki þeir Per Carstedt, stjórnarformaður etanólstofnunarinnar í Svíþjóð og Gustaf Landahl, forstjóri hreinorkustöðvarinnar í Stokkhólmi og yfirmaður stefnumótunar í Evrópu varðandi málefni etanóls sem sjálfbærs orkugjafa.
E85 Líf etanól: 2.000 lítrar í fyrstu sendingu
Olíufélagið Olís hefur tekið að sér að flytja inn til landsins fyrstu sendinguna af vistvæna eldsneytinu E85 Líf etanóli fyrir Brimborg. Nafnið E85 Líf etanól gefur til kynna að eldsneytið er blanda 85% etanóls og 15% bensíns. Olís mun sjá um dreifingu E85 til neytenda en einn helsti kostur E85 umfram annað vistvænt eldsneyti eins og metangas og vetni, er að það er í vökvaformi. Því er hægt að dreifa E85 til neytenda líkt og bensíni. Í þessari fyrstu pöntun eru 2000 lítrar af E85 Líf etanóli.
Brimborg lagði áherslu á mikilvægi þess að eldsneytið uppfyllti fullkomlega kröfur um visthæfi. Enda er eldsneytið upprunnið í Svíþjóð þar sem það er framleitt úr trjáafgöngum sem til falla í sjálfbærum trjáiðnaði Svíþjóðar.
Í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar hvað varðar vistvæna orkugjafa þá ríkti bjartsýni hjá Brimborg um að E85 Líf etanól yrði undanþegið gjöldum eins og metan og vetni. Það gekk eftir og er til marks um framsýni íslenskra stjórnvalda og eykur líkur á að markmiði verkefnisins um samkeppnishæft eldsneytisverð til neytenda náist.
Nánasta framtíð: Öðrum bifreiðaumboðum boðið að ganga til samstarfs
Með opnun á etanóldælunni hjá Olís í Álfheimum 17. september lýkur fyrsta áfanga í etanólvæðingu hérlendis og með honum hefst annar áfangi, sem felur í sér könnun á möguleikum þess að flytja inn fleiri bíla, meira magn af eldsneyti og fjölga E85 dælum. Undirbúningur að öðrum áfanga er þegar hafinn hjá Brimborg og verður öðrum bifreiðaumboðum boðið að ganga til samstarfs við þetta frumkvöðlastarf Brimborgar, öllum til góða.
Fyrstu etanólbílarnir komnir
Í síðasta mánuði komu fyrstu etanólbílarnir til landsins. Um er að ræða fjölskyldubílinn Ford C-Max 1.8 Flexifuel og sportbílinn Volvo C30 1.8 Flexifuel. Nafnið Flexifuel er tilvísun í þann sveigjanleika að bílarnir geta ekið án vandræða á bæði etanóli og bensíni sem er lykilatriði þegar innleiða þarf nýtt eldsneyti í áföngum. Einn af höfuðkostum etanóls er að bílaframleiðendur þurfa að gera tiltölulega litlar breytingar á bílgerðum sínum til að þær geti gengið fyrir E85 Líf etanóli. Það gerir það að verkum að verð bílanna verður samkeppnisfært og að almenningur getur tekið fullan þátt í því markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Bílar af þessari gerð losa allt að 80% minna af koltvísýringi út í andrúmsloftið. Orkuinniheild E85 Líf etanóls er þó minna en bensíns og því er eldsneytisnotkun meiri, en aftur á móti er oktantala eldsneytisins hærri og því er hægt að ná fleiri hestöflum út úr vélinni. Verð etanólbíla liggur ekki fyrir en eitt af markmiðum verkefnisins er að fá úr því skorið. Erindi Brimborgar til tollstjórans í Reykjavík um væntanleg innflutningsgjöld etanólbíla er enn ósvarað og því ekki hægt að segja til um endanlegt verð, en í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um fjölgun visthæfra ökutækja telur Brimborg eðlilegt að gjöld verði felld niður á sama hátt og gert er við vetnis-, rafmagns- og metangasbíla.
Ökukeppni visthæfra ökutækja og ráðstefna um sjálfbær ökutæki
Mikil gróska er um þessar mundir í umræðunni um visthæf ökutæki. Þann 13. september verður ökukeppni visthæfra bíla í samstarfi við Vettvang orku- og stjóriðjurannsókna (VOR) og Orkuveitu Reykjavíkur þar sem keppt verður um minnstu koltvísýringslosun, bestu orkunýtingu og ódýrasta aksturinn. Etanólbílar Brimborgar munu taka þátt í henni (Ford C-Max Flexifuel og Volvo C30 Flexifuel) ásamt öðrum visthæfum bílum frá öðrum bifreiðaumboðum og mun Brimborg bjóða öðrum bifreiðaumboðum sem eru með etanólbíla á sínum vegum og vilja taka þátt í keppninni að þiggja E85 Líf etanól hjá Brimborg.
Þann 15. og 16. september verður svo bílasýning á visthæfum bílum í Perlunni í tengslum við ráðstefnuna Orkukgjafar framtíðarinnar í samgöngum (Driving Sustainability) sem haldin verður á Hilton Hotel Nordica 17. til 18. september.
Upplýsingar um ráðstefnuna Orkugjafar framtíðarinnar í samgöngum
Upplýsingar um etanól í Svíþjóð