Ford kynnir vetnis-tengiltvinnbíl

Ford Motor Company kynnti nýverið fyrsta ökuhæfa bílinn sem gengur fyrir vetni og rafmagni með tengil tækni (þ.e. Plug-in Hydrogen Electric Vehicle) og er hann af Ford Edge gerð. Bifreiðin á að geta keyrt 40 kílómetra á hleðslunni einni áður en efnarafallinn tekur við. Hægt er að hlaða, 336 volta liþíum rafhlöðuna, í gegnum venjulegt heimilisrafmagn yfir nótt.

Bíllinn er búinn nýrri gerð af driflínu, svokallað Hyseries Drive, sem er sérstaklega hönnuð til nota í tvíorkubílum þar sem nýttir eru tveir orkugjafar. Þessi driflína verður notuð hjá Ford í framtíðinni fyrir alla nýja bíla fyrirtækisins og þannig verður hægt að bjóða sífellt fleiri gerðir tvíorkubíla.
Ljóst er að blandaðir tímar eru framundan í eldsneytismálum og hagur bílaframleiðanda að hanna tvíorkutækni sem getur verið sameiginlegur grunnur fyrir margar eldsneytistegundir eins og lífdísel, etanóli og vetni.

Hefðbundin bensín útgáfa af Ford Edge verður kynnt hjá Brimborg hér á landi á næstunni.