Góðar fréttir frá USA!

FULLTRÚADEILD Bandaríkjaþings samþykkti í gær mjög umfangsmikil lög um orkumál en megintilgangur þeirra er að draga úr olíunotkun og auka framleiðslu lífræns eldsneytis, etanóls, úr öðru hráefni en korni. Þá er stefnt að því að hætta alveg notkun glóðarpera. Þetta er í fyrsta sinn í 32 ár, að Bandaríkjaþing bindur í lög ákveðnar kröfur um eldsneytisnotkun bifreiða en frá 2020 verður bannað að aka bifreið, sem ekki kemst að minnsta kosti 15 km á bensínlítranum.

Hefur George W. Bush forseti verið andvígur lagasetningu um þetta hingað til en hefur nú skipt um skoðun og ætlar að undirrita lögin. Þau þýða hins vegar það, að nú hillir undir endalokin fyrir dollaragrín og aðra bensínháka í Bandaríkjunum. Nýju lögin voru samþykkt í öldungadeildinni í síðustu viku og hafa því verið samþykkt í báðum deildum. Var jafnvel búist við því í gær, að Bush myndi undirrita þau þá um daginn. Etanólframleiðsla verður sexfölduð Stefnt er að því að minnka eldsneytisnotkun um 40% og draga sem því nemur úr olíuinnflutningi. Þá á að sexfalda framleiðslu á etanóli fram til ársins 2022. Fram að þessu hefur það aðallega verið framleitt úr maís en nú verður lögð áhersla á að nýta fyrst og fremst annað lífrænt efni, sem til fellur í landbúnaði, til dæmis timburafganga, gras og þess háttar. Auk þessa kveða lögin á um, að glóðarperan gamla verði lögð á hilluna á árunum 2012 til 2014 og í staðinn notaðar sparperur, sem eru að vísu dýrari í framleiðslu en margborga það með miklu meiri endingu og miklu minni rafmagnsnotkun. Áætlað er, að um 2020 muni nýju perurnar spara Bandaríkjamönnum um 800 milljarða ísl. kr. á ári. Sparnaðurinn svarar til framleiðslu 60 meðalstórra raforkuvera og mun minnka koltvísýringsmengun um 100 milljónir tonna árlega. Í þessu máli hefur kristallast baráttan milli gærdagsins og morgundagsins. Nýju lögin marka tímamót, hvernig sem á er litið,“ sagði demókratinn Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, en hún tók mikinn þátt í lagasmíðinni. Stóðu demókratar sem einn maður  að baki henni en meðal repúblikana voru skoðanir nokkuð skiptar. Þrátt fyrir það greiddu 95 fulltrúadeildarþingmenn þeirra lögunum atkvæði sitt. Minni andstaða í bílaiðnaðinum Eitt meginatriði laganna er sú krafa, að bílaiðnaðurinn auki eldsneytisnýtni bifreiðanna um 40% en demókratar segja, að það muni spara venjulegum bíleiganda um 60.000 kr. á ári. Þá gera þeir ráð fyrir, að eldsneytisþörfin muni hafa minnkað um fjórar milljónir fata á dag um 2030 en nú flytja Bandaríkjamenn inn frá Mið-Austurlöndum um tvær milljónir olíufata á dag. Bílaframleiðendur hafa alltaf barist hart gegn auknum kröfum um sparneytni og ekki síst með þeim rökum, að þær mundu draga úr fjölbreytni framleiðslunnar og fækka störfum við hana. Þeir eru þó farnir að átta sig á því hverjum klukkan glymur og hafa ekki haldið uppi miklu andófi að þessu sinni.

Heimild Morgunblaðið