Húshitun

Húshitun

Langflestir landsmenn njóta hitaveitu eða um og yfir 90%,  Aðrir nota rafmagnshitun eða olíukyndingu.

Orkunotkun til húshitunar er háð stærð, gerð, staðsetningu og aldri húsnæðis. Forsendur Orkuspárnefndar gera ráð fyrir að meðalorkuþörf til húshitunar á íbúðarhúsnæði sé í kringum 60 kWh/m3.
Orkuveita Reykjavíkur hefur notað ákveðna stuðla til að meta eðlilega heitavatnsnotkun. Þar er vatnsnotkun á ári deilt með rúmmáli húsnæðis.
Orkuveitan gefur upp eftirfarandi viðmiðunargildi fyrir notkun hitaveituvatns á rúmmál húsnæðis. Lægra gildið er viðmið í vel einangruðu húsi með vel stilltu hitakerfi. Hærra gildið samsvarar eðlilegri eyðslu í húsi í þokkalegu ástandi.

Rúmmetri vatns á hvern rúmmetra húsnæðis á ári:
Stór fjölbýlishús    1,0 – 1,4
Minni fjölbýlishús  1,1 – 1,5
Einbýlishús           1,2 – 1,8

Nokkrar rannsóknir liggja fyrir um orkunotkun til rafhitunar á rúmmetra.  Þær hafa allar verið framkvæmdar af Orkustofnun.  Sú elsta frá 1984 er unnin af Jóni Vilhjálmssyni og Olavi M. Ojala þar sem meðalnotkunin reyndist vera um 83 kWh/m3.  Nýjustu tölur eru frá árinu 2005 í úttekt Eggerts Þrastar Þórarinssonar og Ólafs Péturs Pálssonar, þar sem athuguð var orkunotkun í öllu almennu íbúðarhúsnæði á köldum svæðum.  Niðurstöður þeirrar athugunar sýndu meðalorkunotkun upp á 67 kWh/m3 á ári.