Allar varmadælur nota vinnslumiðil í lokuðu kerfi og nýta þar óreiðubreytingu hans þ.e. þegar vinnslumiðillinn fer úr t.d. vökvafasa í gasfasa. Hefðbundnar varmadælur eru flokkaðar í nokkra grunnflokka eftir fasa varmauppsprettu og fasa varmafrástreymis, t.d. hefur loft/vatn varmadæla varmauppsprettu í gasfasa (loft) og skilar frá sér heitum vökvafasa (vatn).
Loft/loft varmadælur eru algengastar allra varmadælna á heimsmarkaði og eru yfirleitt útfærðar á þann hátt að hægt er að snúa við flæði vinnslumiðilsins, þannig að varmadælan getur ýmist kælt eða hitað húsnæði. Þessi útfærsla er ódýrust varmadælna og selst vel í löndunum nálægt miðbaug þar sem krafan um kælingarþörf er mikil. Þær eru einnig notaðar til hitunar í kaldari löndum og eru vel þekktar á Norðurlöndum.
Hér á landi er víða möguleiki að varminn sé fenginn af svæðum þar sem einhver hiti er í jörðu. Minnstur kostnaður við nýtingu slíks hita er frá náttúrulegum varmauppsprettum á borð við volgrur eða laugar en þá má leggja varmaleiðnileiðslur beint í þær án verulegs jarðrasks. Algengast er að hús séu hituð með vatnsofnakerfum og því er mestur vilji fyrir því að varmadælan skili frá sér heitu vatni sem fer í ofnakerfi sem yfirleitt er til staðar þar sem varmadælunni skal komið fyrir. Hafa skal í huga við nýbyggingar að hiti vatns frá hefðbundnum varmadælum er yfirleitt ekki hærri en 50-60 °C og þá er mælt með gólfhita til upphitunar eða hitablásurum.
Hlutverk Orkuseturs Orkustofnunnar er að stuðla að aukinni vitund almennings og fyrirtækja um skilvirka orkunotkun og möguleika til orkusparnaðar.
Verkefni Orkuseturs eru einnig á sviði nýrra orkugjafa og gerð fræðsluefnis.
Copyright © 2023 Orkusetur.is