Orkusetur logo

Berg/vatn

Berg/vatn varmadælur

Almennt er aðgengi að stórum vatnsæðum eða innstreymisvatni í borholum ekki nauðsynlegt skilyrði fyrir varmadælur, heldur er hægt að hafa varmaskipti við allt borholuvatnið. Þetta er víðast hvar gert erlendis á stórum markaðssvæðum varmadælna, og eru varmaskiptin þá í raun við bergið sem holan nær í gegnum og vatnið miðlar varma bergsins yfir í varmaskiptavökva. Varmaskiptavökvinn er þá leiddur í alllöngum leiðslum í gegnum varmauppsprettu sem miðast að því að auka snertiflöt vinnslumiðilsins við varmauppsprettu (gildir almennt um varmaskipti). Lengd varmaskiptaleiðslanna fer eftir dýpt holunnar og þeim kröfum sem gerðar eru um það varmaafl eða varmaorku sem notast skal við. Hérlendis má sennilega reikna með um 50 W/m og árlegri varmaorku um 200 kWh/m, en það hefur ekki mælt nákvæmlega. Þetta þýðir að virkur hluti varmaskiptaleiðslanna skal vera um 200 m fyrir meðalhúsnæði.
Vegna hás hitastiguls hérlendis er líklegt að bergvarmadælur sýni talsverða rekstrarhagkvæmni og ekki ósvipaða vatn/vatn varmadælum. Ef um íbúðarhúsnæði er að ræða er þörf á upphitun nánast allt árið og rafmagnssparnaður hérlendis því hlutfallaslega hærri en í heitari nágrannalöndum. Varmaleiðni íslenska basaltsins er hins vegar lág (1,6-2,0 W/mK (Flóvenz og Sæmundsson (1993)) en stundum tvöfalt hærri í graníti (2,3-3,9 WmK (Surma og Geraud (2003))). Hér sannast þá aftur mikilvægi vatnsstreymis. Erfitt getur verið að ná góðri varmaupptöku í þurri holu en ef næst í grunnvatn á botni holunnar sem hefur hitastig í kringum 15-20 °C þá eru engin slík vandkvæði (Friðfinnur K. Daníelsson (2004)).