Markmið lagningar upphitunarkerfa í húsnæði er að hækka lofthita. Algengustu gerðir varmadælna á heimsmarkaði nýta lofthita utanhúss og blása heitu eða köldu lofti innanhúss (til upphitunar eða kælingar). Þannig verður varmadælan einnig miðstöð í loftræstikerfi húsnæðisins og getur bætt loftgæði innanhúss. Til eflingar varmaskipta utandyra sem innan eru notaðir viftur eða blásarar sem auka loftstreymi að vinnslumiðli varmadælu.
Þegar raforkusparnaður vegna uppsetningar loft/loft varmadælu er metinn þá þarf að draga frá neysluvatnsnotkun (bað, sturta, kranar) í áætlunum.
Loft/loft varmadælur virka best í opnu rými, þannig ræðst hagkvæmni þeirra oft af innanhússkipulagi. Heita loftið frá dælunni þarf að berast auðveldlega um húsnæðið til að fá hámarksnýtni. Loft/loft varmadælur henta síður í húsnæði með mörgum lokuðum rýmum og/eða hæðum. Huga þarf að staðsetningu dælunnar þannig að hitinn frá henni eigi greiðan aðgang um rýmið. Best er að hafa innihurðir opnar ef mögulegt er til að tryggja góða nýtni.
Mikilvægt er að góðar hitastýringar séu til staðar svo hámarksnýtni náist á varmadælunni. Þegar loft/loft varmadælan er í góðum afköstum þá er mikilvægt að góðar hitastýringar dragi um leið úr álagi á ofnkerfið sem fyrir er, þannig næst hámarkssparnaður.
Að ýmsu þarf að hyggja vegna frágangs utandyra. Passa þarf að dælan sé staðsett þannig að veðurálag sé í lágmarki og að ekki skafi mikið inn á hana. Gott getur verið að byggja yfir hana þannig að snjór setjist síður á dæluna.
Einn gallinn við loft varmadælur er að í miklum frostum þá dregur verulega úr hagkvæmni varmadælunnar. Hér á landi eru vetur hinsvegar mildir og ætti íslenskt loftslag að henta loft varmadælum ágætlega. Hinvegar er mesta þörf fyrir hitun þegar frostið er mest og þá getur annar orkugjafi eins og viðarofn verið kærkomin viðbót til að létta á dælunni. Slík blanda er afar algeng í Noregi.
Hlutverk Orkuseturs Orkustofnunnar er að stuðla að aukinni vitund almennings og fyrirtækja um skilvirka orkunotkun og möguleika til orkusparnaðar.
Verkefni Orkuseturs eru einnig á sviði nýrra orkugjafa og gerð fræðsluefnis.
Copyright © 2023 Orkusetur.is