Orkusetur logo

Vatn/vatn

Vatn/vatn varmadælur

Þau helstu atriði sem íhuga þarf við uppsetningu þessara dælna eru eftirfarandi:

• Staðsetning varmalindar: þarf vatnsdælu til þess að koma varmagjafanum að leiðslum vinnslumiðils?

• Stærð varmalindar: mun varminn sem varmadælan dregur úr vatnsuppsprettunni verða til þess að kæla vatnið?

• Er líklegt að vatn varmauppsprettunar muni frjósa?

• Eru líkur á rafmagnstruflunum sem t.d. stöðva rennsli varmagjafa og auka líkur á að hann frjósi í leiðslum?

Þegar vatni er dælt að varmadælunni þarf að koma fyrir vatnsdælu ofan í borholunni eða brunninum. Framrásarvatnið frá varmalindinni er leitt að varmadælunni og eftir varmaskipti við vinnslumiðil varmadælunnar er bakrásarvatninu komið aftur niður í jarðveg.

Rafmagnsnotkun vatnsdælu í borholu eða brunni verður að bæta við rafmagnsnotkun varmadælu þegar nýtnistuðull er metinn.

Huga þarf að vatnsgæðum varmalindar svo að líkur á stíflum eða tæringu í leiðslum og dælum séu hverfandi. Helst er saltvökvi (sjór) varasamur í þessum efnum og þá mælst til þess að varmaskiptar séu úr títan málmi eða ryðfríu stáli af gerðunum AISI 316L og SMO 254.