Á meðfylgjandi mynd má sjá viðarketil / lurkabrennara sem hentar vel fyrir heimiliskyndingu.
Forsenda þess að svona kerfi virki er að geta geymt hitaorkuna sem ketillinn myndar í stórum einangruðum vatnstönkum og skammtað inná miðstöðvakerfið. Þannig verður nóg að kveikja upp einu sinni á sólarhring.
Nú fer að renna upp sá tími að upphitun með innlendum eldiviði sé að verða raunhæfur kostur á nýjan leik. Sérstaklega á þetta við þar sem rafmagn eða olía eru notuð til upphitunar. Árið 1990 höfðu allnokkrir bændur hafið skógrækt á sínum jörðum um land allt og eftir þann tíma hefur umfang bændaskóga vaxið jafnt og þétt.
Bændaskógarnir eru dreifðir um land allt og í framtíðinni verður því á flestum stöðum stutt í næsta bændaskóg.
Til að hagkvæmt sé að nota eldivið til upphitunar má fjarlægðin að skóginum ekki vera mjög mikil og er gjarnan miðað við um 30-50 km. Viður tekur mikið pláss og er dýr í flutningi. Hagkvæmast er auðvitað að nýta eigin skóg og tæki.
Miklar framfarir hafa orðið í þróun viðarkatla til húshitunar. Forsenda fyrir því að kerfið virki vel er að geta geymt orkuna sem losnar við brunann. Einfaldasta leiðin til þess er að nota ofninn til að hita vatn í einangraða tanka sem deila hitanum út á vatnsofnakerfi mörgum klukkustundum eftir að eldurinn í katlinum er slokknaður. Mjög mikilvægt er að eldiviðurinn sé þurr til að hámarka orkunýtinguna og lágmarka mengun við brunann. Viðarkatlar eru oft útbúnir þeim möguleika að nota aðra eldsneytisgjafa s.s. rafmagn eða olíu sem getur þá tekið við ef ekki er verið að kynda með eldivið.
Hlutverk Orkuseturs Orkustofnunnar er að stuðla að aukinni vitund almennings og fyrirtækja um skilvirka orkunotkun og möguleika til orkusparnaðar.
Verkefni Orkuseturs eru einnig á sviði nýrra orkugjafa og gerð fræðsluefnis.
Copyright © 2023 Orkusetur.is