Hvalfjarðarsveit eignast tvinnbíl

Á morgun verður skipulags- og byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar afhentur umhverfisvænn tvinnbíll frá sveitarfélaginu. Athöfnin fer fram við félagsheimilið Miðgarð, þar sem sem skrifstofur Skúla Lýðssonar, skipulags- og byggingarfulltrúa, eru til húsa, og hefst klukkan 16. Formaður umhverfis- og náttúruverndarnefndar, Arnheiður Hjörleifsdóttir, afhendir þá lyklana að nýrri Toyota Prius-bifreið, en þetta er fyrsta bifreiðin sem Hvalfjarðarsveit festir kaup á og er ætluð Skúla til afnota í starfi sínu. Starfi skipulags- og byggingarfulltrúa fylgir mikill akstur um stórt og víðfeðmt sveitarfélagið og því voru fest kaup á tvinnbíl, en þeir eru bæði búnir rafmótor og bensínhreyfli.