Iðnaðarráðherra á rafbíl

Iðnaðarráðherra, Katrínu Júlíusdóttur hefur nú verið afhentur nýr fjögurra manna i MiEV rafbíl frá Mitsubishi og mun ráðuneytið hafa afnot af bílnum næstu tvö árin. Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun fengu annan bíl til umráða og verða báðir bílarnir nýttir til ýmissa rannsóknarverkefna hjá fyrirtækjunum og á vegum Orkuseturs og Íslenskrar NýOrku. Hjörleifur B. Kvaran forstjóri OR afhenti jafnframt iðnaðarráðherra lykil að nýjum orkupósti sem settur hefur verið upp framan við ráðuneytið við Lindargötu.

Iðnaðarráðherra sagði við móttöku rafbílsins að notkun hans markaði aðeins fyrsta skrefið af mörgum í sérstakri áætlun um að auka hlut innlends visthæfs eldsneytis í samgöngum á kostnað innflutts jarðefnaeldsneytis. Áform um slíkt eru í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og á vegum iðnaðarráðuneytisins hefur verið unnið að mótun áætlunarinnar um að draga fram undir einu merki þau fjölbreyttu verkefni sem tengjast orkuskiptum í samgöngum. Á næstunni verður kynnt skipan verkefnisstjórnar orkuskiptaáætlunarinnar, kjörorð, merki og næstu skref.

Samstarf við Orkusetur

Í september 2008 skrifaði Iðnaðarráðuneytið og Orkustofnun undir viljayfirlýsingu við Heklu hf, Mitsubishi Corporation og Mitsubishi Heavy Industries um annars vegar hagkvæmnisathugun á framleiðslu á vistvænu eldsneyti, „DME synthesis“ úr ma. útblæstri frá járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga og hins vegar um aðgerðir til þess að greiða fyrir innflutningi á rafbílum til Íslands í rannsóknaskyni.

Orkusetur á Akureyri festi kaup á rafbílnum í rannsóknaskyni en Iðnaðarráðuneytið leggur um 6 milljónir króna til verkefnisins í samræmi við samstarfssamning sem gildir fram í febrúar 2012. Hluti af rannsóknarverkefninu felst í því að i MIEV rafbíllinn verður nýttur sem ráðherrabíll af iðnaðarráðuneytinu eins og kostur er. Auk þess verður bíllinn til reynslu hjá Orkusetrinu og fleiri aðilum. Orkusetur sér um gagnaöflun og aðra þætti rannsóknarinnar.

Miklar rannsóknir á visthæfum samgöngukostum

Viðamiklar rannsóknir hafa farið fram hérlendis á undanförnum árum á vetnisrafbílum og öðrum visthæfum bílum, t.d. þeim sem brenna metani. Metanbílar eru nú orðnir samkeppnishæfir í verði og hefur þeim fjölgað talsvert á undanförnum árum. Þróun rafbíla hefur einnig verið hröð að undanförnu og er því spáð að innan nokkurra ára muni samkeppnishæfni rafbíla stóraukast og að þeir verði raunhæfur kostur fyrir almenning. Þangað til er mikilvægt að safna reynslu og skoða hvernig bílarnir reynast við íslenskar aðstæður.

Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun hafa bæði sett sér markmið í visthæfri samgöngustefnu um að auka hlutdeild visthæfra bíla í sinni notkun en OR rekur nú þegar 22 metanbíla, 5 vetnisbíla og einn rafbíl. Íslensk NýOrka, sem hingað til hefur að mestu leyti rannsakað notkun á vetni, mun gera svipaðar rannsóknir á bílunum og gerðar hafa verið með vetnisrafbíla til samanburðar. Orkusetrið á Akureyri og Háskólinn á Akureyri munu vinna með NýOrku að rannsóknarhlutanum. Bílaleiga Akureyrar er einnig þátttakandi í verkefninu og hefur fyrirtækið nú fengið umhverfisvottun og markmiðið er að skoða möguleika á auknu framboði á visthæfum bílum í framtíðinni. Hekla, Orkusjóður Landsvirkjunar og NORA styrkja alla rannsóknarvinnu í verkefninu.