Kínverjar kalla á léttari klæðnað

Kínversk yfirvöld hafa skorið upp herör gegn orkusóun, og hvetja skrifstofufólk til að mæta í stuttermabolum í vinnuna, fremur en í hefðbundnum jakkafötum og drögtum, að því er kínverskir fjölmiðlar greina frá í dag. Með þessum hætti á ekki að þurfa eins mikla loftkælingu á skrifstofum en ella.

Kínverska ríkisstjórnin fyrirskipaði í síðustu viku að í flestum húsum megi ekki stilla loftkælinu neðar en á 26°C, en búist er við mikilli orkuþörf til loftkælingar í sumar og óttast að raforkuskortur verði. Loftkæling tekur um helming allrar raforku sem notuð er í skrifstofubyggingum á sumrin.

Í Japan hefur skrifstofufólk einnig verið hvatt til að vera léttklætt í vinnunni til að draga megi úr loftkælingu.

Heimild: mbl.is