Losun skal minnka.

Umhverfisráðherra segir að þótt stóriðja á Íslandi sé loftlagsvænni en annars staðar í heiminum, eigi að fara hægt í frekari uppbyggingu hennar meðal annars vegna náttúruverndar. Ríkisstjórnin stefnir að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 50% til 75% fram til ársins 2050.

Ríkisstjórnin hefur sett fram fimm markmið í loftslagsmálum. Þau eru að íslensk stjórnvöld standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar innan ramma Loftlagssamnings Sameinuðu þjóðanna og Kyoto bókunarinnar.

Leita á allra hagkvæmra leiða til að minnka losun gróðurhúsaloftegunda. Markvisst verður stuðlað að samdrætti í notkun jarðefnaeldsneytis en þess í stað nýtt endurnýjanleg orka og loftslagsvænt eldsneyti. Stuðlað verður að aukinni bindingu kolefnis úr andrúmslofti með skógrækt og landgræðslu, endurheimt votlendis og breyttri landnotkun. Rannsóknir og nýsköpun á sviði loftlagsmála verður efld og stutt við útflutning á íslensku hugviti á sviði endurnýjanlegrar orku og loftslagsvænnar tækni. Undirbúin verður aðlögun að loftlagsbreytingum jafnhliða því sem leitað verður leiða til að draga úr hraða þeirra og styrkleika.

Marmikið er að minnka nettólosun gróðurhúsalofttegunda um 50% til 75% frá árinu 1990 til 2050. Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra segir að ef það eigi að leysa loftlagsvandann eigi að auka hlut endurnýjanlegrar orku.

Heimild www.ruv.is