Forsvarsmenn borgarstjórnar Reykjavíkur kynntu í dag vistvæn skref, sem stigin verða í borginni á næstu misserum. Meðal annars fá ökumenn að leggja vistvænum bílum ókeypis í bílastæði borgarinnar og eru borgarbúar með þeim hætti hvattir til að aka um á slíkum bílum til að draga úr mengun. Þá verður Pósthússtræti meðfram Austurvelli gert að göngugötu í miðbæ Reykjavíkur á góðviðrisdögum.
Fram kom á blaðamannafundi, sem Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, og Gísli Marteinn Baldursson, formaður umhverfisráðs, héldu í dag, að til stendur að bæta þjónustu Strætó bs. með því að allar biðstöðvar strætisvagna fá eigið nafn sem birtist meðal annars á ljósaskilti um borð í vögnum. Allar lykilbiðstöðvar munu birta rauntímaupplýsingar og greiðslumáti í strætó verður auðveldaður. Strætó fær oftar forgang í umferðinni á völdum stofnbrautum og reykvískir námsmenn fá ókeypis í strætó á haustmisseri 2007.