Orkubruðl að nota plasmaskjá

rkubruðl að nota plasmaskjá
Þeim Bretum sem eiga sjónvarp með plasma-flatskjá fjölgar hratt en þessi þróun veldur stóraukinni orkuþörf, að sögn breska dagblaðsins The Guardian. Nýju plasma-sjónvörpin geta þurft allt að fjórum sinnum meira rafmagn en gömlu túbutækin. Hefur blaðið eftir dr. Joseph Reger, yfirmanni tæknimála hjá Fujitsu Siemens-tölvufyrirtækinu í München í Þýskalandi, að aukna orkuþörfin svari til þess að reisa verði tvö kjarnorkuver í Bretlandi eingöngu vegna plasmaskjánna.

"Ef allir plasmaskjáirnir [í Bretlandi] væru í gangi samtímis þyrftu þeir um 2,5 gígavött," segir Reger. "Þessa orku væri hægt að framleiða með tveim kjarnorkuverum." En Reger segir að þegar allt sé tínt til í stafrænu byltingunni sem sé að ganga í garð á heimilinu, þ. á m. nýir DVD-spilarar og upptökutæki, geti aukin orkuþörf Breta orðið allt að sex gígavött samanlagt.

Um fjórðungur allrar losunar á koltvísýringi í andrúmsloftið stafar af orku til heimilisnota eða álíka hlutfall og vegna samgangna. Margir skilja sjónvarpstæki sín og DVD-spilara eftir í biðstöðu en slökkva ekki á þeim; þetta eitt út af fyrir sig merkir að milljón tonn af koltvísýringi að auki fara út í loftið árlega.

Reger er þó bjartsýnn og segir að hagkvæmari tækni muni leysa plasmaskjáina af hólmi en það geti tekið allmörg ár. Aukin umhverfisvitund meðal almennings muni valda því að fólk kaupi framvegis tæki með merkingu eins og "Sérlega lítil rafmagnsnotkun í biðstöðu".
Heimild: mbl.is

Með reiknivél Orkuseturs má skoða orkunotkun plasma skjáa og LCD. sjá:

Rafreiknir