Orkupóstar fyrir rafbíla í Reykjavík

Eigendur rafbifreiða í Reykjavík eiga nú kost á ókeypis áfyllingu og bílastæði í miðborginni. Orkuveitan og Reykjavíkurborg kynntu orkupóst sem settur var upp við stæði í Bankastræti í dag.

Grænt skref var stígið í samgöngumálum í Reykjavík í dag. Þeir sem hyggjast festa kaup á rafbílum geta nú fengið ókeypis áfyllingu á þremum stöðum á höfuðborgarsvæðinu: Bankastræti og í verslunarmiðstöðvunum Kringlunni og Smáralind. Orkuveitan hefur í samvinnu við borgina látið setja upp rafpósta þar sem hægt er að hlaða rafbíla. „Þetta er hvatning fyrir fyrirtæki og stofnanir í borginni til að fjárfesta í rafbílum,“ sagði Gísli Marteinn Baldursson formaður umhverfis- og samgönguráðs þegar hann kynnti orkupóstana ásamt Kjartani Magnússyni stjórnarformanni Orkuveitu Reykjavíkur. „Rafmagnið er framtíðin í bílasamgöngum og nú hafa ökumenn upplýst val á milli orkugjafa.“

„Rafbílar eru hentugir borgarbílar, þeir menga ekki og eru í rétta stærðarflokknum,“ segir Pálmi Freyr Randversson sérfræðingur í samgöngumálum hjá Umhverfis- og samgöngusviði. „Rafbílar eru nú ennþá samkeppnishæfari en áður vegna hækkandi eldsneytisverðs og ættu borgarbúar að skoða þennan valkost fyrir alvöru þegar þeir velja sér bifreið næst.“

Rafbíll er laus við útblástur koltvísýrings og annarra skaðlegra efna. Rekstrarkostnaður rafbíls er um það bil 20 þúsund krónur á ári en kostnaður við hefðbundinn smábíl er um það bil 100 þúsund kr.