Orkusetur ríður á vaðið með samgöngu- og ökutækjastefnu sem fyrirmynd fyrir opinberar stofnanir.

Ríkistjórnin hefur sett sér metnaðarfull markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Að mati Vegagerðarinnar hefur losun koltvíoxíðs frá vegasamgöngum aukist um 60 prósent á milli áranna 1990 og 2006. Það er því afar brýnt að hefjast handa við að nálgast þessi markmið með markvissum hætti. Orkusetur hefur nú ákveðið að gera sitt með því að móta sér skýra stefnu í samgöngumálum í þeirri von að aðrar opinberar stofnanir fylgi í kjölfarið. Það er skylda opinberra stofnanna að draga vagninn í innleiðingu umhverfisvænni samgangna.

Stefnan snýr einkum að innkaupum og leigu á bifreiðum. Bifreiðar sem keyptar verða skulu knúnar vistvænum orkugjöfum þar sem orkunýtni verður höfð til viðmiðunar í vali á bifreið. Ef slík ökutæki  henta illa eða fást ekki á viðunandi kjörum skal leitast við að velja bifreiðar með lægstu eyðslugildi sem völ er á hverju sinni. Þegar leigðar eru bifreiðar, bílaleigu- eða leigubifreiðar, skal ávallt leitað þjónustu fyrirtækja sem bjóða upp á bifreiðar knúnar vistvænum orkugjöfum og/eða visthæfum bifreiðum með útblástursgildi undir 120 CO2g/km. Einnig er komið inn á almenningssamgöngur og vistakstur í stefnunni.
Nú þegar eru til staðar bílaleiga, Hertz, og Leigubílastöðin 5678910, sem bjóða upp á visthæfar bifreiðar og afar mikilvægt að hið opinbera skapi eftirspurn eftir umhverfisvænni bifreiðum með því að stýra vali starfsmanna þegar kemur að slíkri þjónustu.  Fjöldi bílaleigubifreiða í umferð skiptir þúsundum og samdráttur í losun þeirra hefði mikið að segja í kolefnisbókahaldi þjóðarinnar.

Nýlega mótuðu Íslensk NýOrka, Orkusetrið og Orkustofnun bækling sem auðveldar fyrirtækjum að setja sér samgöngustefnu og hvað ber að hafa í huga við gerð slíkrar áætlunar. Bæklingnum verður dreift til 70% fyrirtækja landsmanna.

Stefnuna í heild má sjá hér

Allar nánari upplýsingar gefur:

Sigurður Friðleifsson

ORKUSETUR
Borgum við Norðurslóð, 600 Akureyri
Sími: 569 6085
GSM: 863 6085
sif@os.is