Um 20% raforku fer í að kæla og frysta matvæli. Til að forðast orkutap ætti að opna kæliskápa og frystigeymslur sem sjaldnast og aldrei hafa opið í langan tíma í einu. Í kæliskáp er nægilegt að hafa 4°C en ÷18°C í frystigeymslunni. Lægri hiti eykur aðeins orkunotkun en kemur ekki að gagni.
Til þess að fylgjast með hitastiginu í kæligeymslunum er nauðsynlegt að hafa í þeim hitamæla. Þeir kosta lítið. Því kaldara sem er úti því meira þarf að kynda. Á sama hátt nota kæliskápar og frystikistur því meiri orku sem þau standa í heitara herbergi. Frystirinn er því best geymdur í kaldri geymslu og kæliskápurinn þarf að standa þannig að loft geti auðveldlega leikið um kæligrindina aftan á skápnum. Henni þarf einnig að halda vel hreinni (nota ryksugu þegar skápurinn er tekinn fram).
Nýir kæliskápar og frystiskápar nota mun minni orku en eldri.
Dæmi: 10 ára ísskápur (528 kWh/ári) sem skipt er út fyrir nýjan A+ (194 kWh) gefur 334 kWh sparnað á ári sem samsvarar um 3.000 kr.Opinn ísskápur er engum til gagns.
Copyright © 2023 Orkusetur.is