Góð ráð

Góð ráð

Eldhúsið

Eldavél

  • Pottar og pönnur verða að hafa sléttan botn og ná yfir alla helluna. Ef potturinn eða pannan hringlar á hellunni getur helmingur hitans tapast.
  • Þrefalt meiri orku þarf til að elda í opnum potti heldur en lokuðum. Lokið á pottunum þarf að vera hæfilega þétt og þegar suðan er komin upp á að lækka strauminn og láta sjóða á minnsta straumi.
  • Við suðu, t.d. á kartöflum og grænmeti, er nóg að nota eins til tveggja cm vatn í pottinum.
  • Til að nýta allan hitann er best að slökkva undir potti 5-10 mínútum áður en maturinn er fulleldaður.
  • Vifta, sem blæs loftinu út, gefur góða loftræstingu en veldur jafnframt hitatapi úr íbúðinni. Hringrásarvifta með síu veldur hins vegar ekki hitatapi, aftur á móti endurnýjar hún ekki loftið í eldhúsinu.

Bökunarofn/steikarofn

  • Bökunarofn er mikill orkugleypir. Þar sem töluverð orka fer einungis í það að hita hann upp er vert að athuga hvort ekki sé hægt að ná sem lengstum notkunartíma í einu með því að baka og steikja hvað á eftir öðru.
  • Hægt er að spara rafmagn með því að setja í ofninn um leið og kveikt er á honum og slökkva síðan rétt áður en maturinn er tilbúinn.
  • Grillið í ofninum krefst mun meiri orku en t.d. þegar steikt er í potti.

Örbylgjuofn

  • Hægt er að spara bæði tíma og rafmagn með því að matreiða í örbylgjuofni, sérstaklega ef um lítið magn er að ræða.
  • Best er að nota sem minnst af vatni við eldunina eða jafnvel sleppa því alveg.
  • Nota skal frekar stórt ílát og dreifa matnum jafnt yfir það.
  • Frosinn mat ætti að þýða í kæliskápnum frekar en örbylgjuofninum.

Uppþvottavél

  • Fylla skal vélina fyrir hvern þvott. Hún notar jafnmikið rafmagn hvort sem hún er hálftóm eða full.
  • Æskilegt er að nota stysta þvottakerfið og lægsta vatnshitann.

Geymsla matvæla

Um 20% raforku fer í að kæla og frysta matvæli. Til að forðast orkutap ætti að opna kæliskápa og frystigeymslur sem sjaldnast og aldrei hafa opið í langan tíma í einu. Í kæliskáp er nægilegt að hafa 4°C en ÷18°C í frystigeymslunni. Lægri hiti eykur aðeins orkunotkun en kemur ekki að gagni.

Til þess að fylgjast með hitastiginu í kæligeymslunum er nauðsynlegt að hafa í þeim hitamæla. Þeir kosta lítið. Því kaldara sem er úti því meira þarf að kynda. Á sama hátt nota kæliskápar og frystikistur því meiri orku sem þau standa í heitara herbergi. Frystirinn er því best geymdur í kaldri geymslu og kæliskápurinn þarf að standa þannig að loft geti auðveldlega leikið um kæligrindina aftan á skápnum. Henni þarf einnig að halda vel hreinni (nota ryksugu þegar skápurinn er tekinn fram).

Nýir kæliskápar og frystiskápar nota mun minni orku en eldri.

Dæmi: 10 ára ísskápur (528 kWh/ári) sem skipt er út fyrir nýjan A+ (194 kWh) gefur 334 kWh sparnað á ári sem samsvarar um 3.000 kr.Opinn ísskápur er engum til gagns.

Þvottur og þurrkun

Þvottur og þurrkun taka til sín um 20% raforkunnar á meðalheimili. Með eftirfarandi leiðum má draga verulega úr orkunotkun við þvott:

  1. Fylla ávallt vélina af taui. Hálftóm vél eyðir álíka miklu rafmagni og full.
  2. Forþvottur er ekki nauðsynlegur nema í einstaka tilvikum. Ef forþvotti er sleppt sparast 20% af rafmagnsnotkuninni.
  3. Því lægri vatnshiti sem þvegið er við, því minni rafmagnsnotkun. Oft dugar að þvo við 40°C gráður í stað 60°C. Merkingar á fötum sýna hámarkshita sem fötin þola en eru ekki leiðbeiningar um hvaða hita skal nota við þvott.

Ný þvottvél notar talsvert minna rafmagn en eldri gerðir. Mikilvægt er að velja vélar flokki A, A+ eða A++ til að ná hámarks skilvirkni við þvott.

Þurrkun með þurrkara er afar orkukrefjandi. Mikilvægt er að þeytivinda vandlega og vinda tauið vel áður en sett er í þurrkara. Of mikið tau og of lítið tau í þurrkara veldur meiri rafmagnsnotkun. Mikilvægt er að fylgja leiðbeiningum um hvað hagkvæmt sé að þurrka mikið í einu. Varast ber að ofþurrka föt. Mikilvægt er að hreinsa lósíuna eftir hverja notkun því annars getur þurrktíminn lengst verulega og þar með orkunotkun.

Ef þvottur er hengdur til þerris á snúrur er engri orku sóað.