Raftæki

Raftæki

Rafmagnstæki

Rafmagnstækjum fjölgar sífellt á heimilum landsins. Um 10% raforkunotkunar heimilistækja fer oft á tíðum í svokallaða biðstöðu eða “Stand by” notkun. Hafa ber í huga að í biðstöðu eyða rafmagnstæki orku án notkunar. Tæki í biðstöðu skila engu til notenda nema hærri rafmagnsreikningi.

Biðstaða tækja er oft kölluð rafmagnsleki enda seytlar hægt og bítandi út raforka engum til gagns. Auðveldasta leiðin til að minnka biðstöðunotkun er að slökkva alveg á tækjum og helst að taka úr sambandi. Mjög einföld leið til að draga úr biðstöðunotkun er að tengja sjónvarp, DVD-spilara, afruglara, hljómflutnings- og myndbandstæki inn á sama millistykki með rofa þar sem slökkva má á öllum tækjum í einu.

Ekki er nóg að slökkva á tækjum með fjarstýringu. 

Raftæki halda áfram að eyða orku í biðstöðu nema slökkt sé alveg á þeim eða þau tekin úr sambandi.

Merkingar raftækja

Samkvæmt lögum um merkingar og upplýsingaskyldu eiga seljendur að veita neytendum upplýsingar um orkunotkun viðkomandi tækja. Lögin taka mið af evrópskum stöðlum og má sjá staðlaðan merkimiða hér til hliðar. Merkimiðanum skal komið fyrir utanvert á framhlið eða ofan á tækinu þannig að ekkert skyggi á hann.

Orkunýtni tækja er skipt í flokka A-G þar sem A merkir góða nýtni en G merkir slæma. Athygli skal vakin á því að bætt hefur verið við tveimur flokkum, þ.e. A+ og A++ sem hafa allra bestu orkunýtnina. Orkusetur mælir eindregið með kaupum á A+ og A++ vörum.

Á skrifstofuvörum eins og tölvum, prenturum og ljósritunarvélum ber að leita að merkingunni “Energy star”. Slík merking á að tryggja að varan hafa góða orkunýtni og noti minni orku en önnur raftæki í sama flokki. Merki energy star má sjá hér fyrir neðan.