Franska póstþjónustan, La Poste, hefur nú ákveðið að skipta um farartæki og ætlar að panta tíu þúsund farartæki sem knúin verða rafmagni. La Poste, sem er ríkisrekið fyrirtæki, hyggst halda útboð fyrir evrópska framleiðendur vegna fyrstu pöntunarinnar sem hljóðar upp á 500 rafmagnsfarartæki. Franski pósturinn vill með þessu minnka eldsneytisreikninginn sem hljóðar upp á 70 milljón Evra eða rúmlega sex milljarða króna á ári.
Að sögn framkvæmdarstjóra La Poste er mun hagkvæmara að fjárfesta í rafmagnsfarartækjum en bílum eða sendiferðabílum sem ganga fyrir bensíni eða díselolíu. Kostnaðurinn sé sexfalt sinnum ódýrari við rafmagnsbílana. Að auki hafa forráðamenn La Poste reiknað út að með því að skipta um farartæki, minnki útblástur koltvísýrings (CO2) um 4 tonn á ári á hvert farartæki.
Heimild: mbl.is