Ríkisstjórnin vill stuðla að aukinni notkun vistvænna bíla

Ríkisstjórnin hefur samþykkt lagafrumvarp, sem ætlað er að hvetja til aukinnar notkunar á vistvænum ökutækjum. Þar er m.a. gert ráð fyrir að vörugjöld verði felld tímabundið niður af metan-bílum og rafmagnsbílum. Þá verður mælst til þess við ríkisstofnanir, að þær kaupi vistvæna bíla þegar þær endurnýja bílakost sinn.

Í minnisblaði, sem Geir H. Haarde, forsætisráðherra, lagði fyrir ríkisstjórnarfund í dag, kemur fram, að samkvæmt núgildandi lögum sé vörugjöld af bílum búnum vélum, sem nýta metangas eða rafmagn að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu 240.000 kr. lægra en ella og ökutæki, sem eru alfarið knúin af rafmagni eða metangasi séu alfarið undanþegin gjaldskyldu til ársloka 2008. Ríkisstjórnin leggur hins vegar til að þessi lagaákvæði verði framlengd til ársloka 2009.

Þá kemur fram í minnisblaðinu, að áætlað sé að einn bensínbíll mengi að jafnaði jafnmikið og 113 sambærilegir metanbílar. Því sé lagt til, að ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki kaupi vistvænar útfærslur á bílum og tækjum þar sem það hentar. Markmiðið er, að í lok árs 2008 verði 10% af bílum í eigu ríkisins knúnir vistvænum orkugjöfum, 20% í lok árs 2010 og 35% í lok árs 2012.

Þá kemur fram, að auk þess sem aðgerðirnar stuðli að minni losun gróðurhúsalofttegunda muni þær einnig koma í veg fyrir þá sóun orku, sem felist í því að brenna hauggas sem verður til úr lífrænu sorpi. Frá árinu 1996 hefur hauggasi, sem verður til á urðunarsvæði Sorpu í Álfsnesi, verið safnað saman og það brennt þar sem veruleg gróðurhúsaáhrif hljótast af óheftu útstreymi hauggass. Frá árinu 2000 hefur einnig verið unnið metan úr hauggasinu og það notað á bíla. Nú ganga um 50 bílar hér á landi fyrir metani að hluta eða öllu leyti en áætlað er að nægjanlegt gas geti fengist á hverju ári úr Álfsnesi til að fullnægja þörfum 4000 smærri ökutækja.

Heimild: mbl.is