Orkusetur logo

Vetni

Vetni er áhugaverður kostur til að miðla rafmagni frá rafkerfinu til að knýja farartæki, skip og jafnvel flugvélar. Í hreinni mynd þess má líta á vetnið sem orkubera sem geymir rafmagn í sama skilningi og rafhlöður. Þá er hugsað til þess að innlent rafmagn fengið úr rafkerfinu væri notað til að rafgreina vetni úr vatni, vetnið sé geymt í farartækinu og því aftur breytt í rafmagn við notkun. Rafgreiningin getur annað hvort farið fram í sérstökum vetnisstöðvum eða í smærri stíl, svo sem við heimahús eða vinnustaði. Síðara ferlið, umbreyting vetnisins í vatn og rafmagn, gerist í svokölluðum efnarafölum.

Hængurinn á slíkri vetnisvæðingu er sá helstur að tæknin er enn í þróun og allur búnaður enn afar dýr, einkum efnarafalarnir, enda er vart hægt að tala um fjöldaframleiðslu í þessum efnum ennþá. Æ meiri bjartsýni gætir þó í spám um verð á vetnisbúnaði, svo sem efnarafölum, við væntanlega fjöldaframleiðslu og því er spáð að sú verðþróun haldi áfram.

Þegar um vetnið ræðir verður að hafa í huga að orkunýtnin í heildarferlinu frá rafkerfinu og til rafhreyflanna í farartækinu er talsvert lakari en ef unnt væri að geyma rafmagnið í rafhlöðum.

Íslensk Nýorka hefur verið í farabroddi að kyna möguleika vetnis á Íslandi sjá: Íslensk Nýorka