Sjálfbærar orkulausnir í samgöngum

Fjölmargir sérfræðingar frá stærstu bílaframleiðendum heims, framsæknum orkufyrirtækjum og rafhlöðuframleiðendum svo og háskólum eru meðal fyrirlesara á Driving Sustainability ´09, alþjóðlegri ráðstefnu í Reykjavík um sjálfbærar orkulausnir í samgöngum.

Þeir munu veita innsýn í stefnumótun og hagkvæmustu tæknilausnir í vistvænum samgöngum sem eru í boði í dag. Hátt í 200 þátttakendur frá 25 löndum eru skráðir á ráðstefnuna, s.s. frá Norðurlöndum, Bandaríkjunum, Japan og Kína.

Orkugjafar eins og metan, lífeldsneyti og rafmagn koma í síauknum mæli í stað kolefnaeldsneytis fyrir bíla og eru Norðurlönd leiðandi í notkun þeirra til hagsbóta fyrir bæði efnahag og umhverfi.

Forystuhlutverk Norðurlanda í vistvænum orkulausnum verður í brennidepli á Driving Sustainability ráðstefnunni sem fram fer á Hilton Reykjavík Nordica 14. og 15. september næstkomandi.

Borgarstjóri Kaupmannahafnar í umhverfis og tæknimálum, metansérfræðingar frá Svíþjóð, yfirmaður rafmagnsbílaverkefnis sænsku orkustofnunarinnar Vattenfall og formaður norska rafbílasambandsins NORSTART eru á meðal norrænna sérfræðinga sem halda erindi á ráðstefnunni.

Bílaframleiðendurnir Toyota frá Japan og BYD Auto frá Kína, auk iðnaðarsamsteypunnar Mitsubishi Heavy Industries í Japan munu einnig skýra frá þróun sinni á ökutækjum og orkuinnviðum sem miða að því að draga stórlega úr notkun kolefnaeldsneytis og losun gróðurhúsalofttegunda.

Rafhlöðusérfræðingar og fulltrúi National Renewable Energy Laboratory (NREL), sem er hluti af orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna, munu lýsa framþróun í þessum geira vestanhafs.

Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, opnar ráðstefnuna mánudaginn 14. september klukkan níu. Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, ávarpar ráðstefnuna þriðjudaginn 15. september klukkan níu.

Ráðstefnunni lýkur á því að gestir fara í skoðunarferð í jarðvarmavirkjun á Reykjanesi og í heimsókn í Bláa Lónið.

Alþjóða Orkuráðið (World Energy Council), heldur árlegan fund sinn á Hilton Reykjavík Nordica í kjölfar Driving Sustainability ´09 og verður vikan 14.-19 September því sannkölluð orkumálavika í Reykjavík.

Gestgjafar ráðstefnunnar Driving Sustainability eru Norræna Ráðherranefndin og Reykjavíkurborg. Bakhjarlar eru Mitsubishi í Japan, N1, Orkuveita Reykjavíkur, Metan, Orkustofnun, Toyota, Sænska Sendiráðið á Íslandi, Norska Sendiráðið á Íslandi, Iðnaðarráðuneytið, Utanríkisráðuneytið og Umhverfisráðuneytið auk Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Ráðstefnan er skipulögð af íslenska fyrirtækinu Framtíðarorku sem hefur unnið að því síðan 2006 að koma á orkuskiptum í samgöngum.

Nánari upplýsingar www.drivingsustainability.org