Stofnun Orkuseturs (Energy Agency)

Þann 24. nóvember 2005 hófst formlega rekstur Orkuseturs sem staðsett er að Borgum á Akureyri. Hlutverk setursins er að stuðla að aukinni vitund almennings og fyrirtækja um skilvirka orkunotkun og möguleika til orkusparnaðar. Verkefni Orkuseturs verða einnig á sviði nýrra orkugjafa og gerð fræðsluefnis. Orkusetrið er stofnað af Orkustofnun í samstarfi við iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið. Verkefnið er styrkt af Evrópusambandinu auk þess sem KEA og Samorka koma að fjármögnun setursins.

Innan orkusviðs Evrópusambandsins (ESB) er að finna sjóð undir heitinu Intelligent Energy – Europe (IEE). IEE er ekki rekið á tæknilegum grunni heldur er því ætlað að skapa umhverfi fyrir skilvirka orkunotkun og endurnýjanlega orkugjafa. Í þessu felst að ekki er um rannsóknarstyrki að ræða heldur er lögð áhersla á að miðla upplýsingum um þekkta tækni og stuðla að því að auka vitund almennings og fyrirtækja um orkunotkun.

Meðal þeirra verkefnaflokka sem IEE er ætlað að styrkja er stofnun svokallaðra orkusetra eða orkuskrifstofa (Energy Agency) í aðildarlöndunum. Þeim er ætlað að starfa svæðisbundið og hafa þegar verið stofnaðar um 350 slíkar skrifstofur að tilstuðlan IEE víðs vegar um Evrópu.

Á árinu 2004 tók iðnaðarráðuneytið, í samvinnu við Orkustofnun, þátt í umsókn til SAVE um stofnun orkuseturs hér á landi ásamt fulltrúum sveitarstjórna á eyjunum Samsö í Danmörku og Tenerife á Kanaríeyjum. Í umsókninni var gert ráð fyrir að meginmarkmið orkusetursins yrði eftirfarandi:
1. Miðla upplýsingum um orkumál til almennings og stjórnvalda.
2. Hvetja til skilvirkrar orkunotkunar, sérstaklega við húshitun.
3. Aðstoða lítil og meðalstór fyrirtæki við að auka orkunýtni, bæði í iðnaðarferlum og byggingum.
4. Aðstoða sveitarfélög við að finna leiðir til bættrar orkunýtni.
5. Stuðla að minni notkun jarðefnaeldsneytis á farartæki og kynna nýja tækni í samgöngum.
6. Kappkosta að Ísland verði vettvangur fyrir rannsóknir og prófanir á nýrri tækni á orkusviði.
7. Stuðla að yfirfærslu tækniþekkingar á orkusviði með samstarfi við orkusetur í öðrum löndum.