Tengiltvinnbifreiðin handan við hornið

LTC, Lithium Technology Corporation er fyrirtæki sem sérhæfir sig í endurhlaðanlegum rafhlöðum af stærri gerðinni. LTC hefur vakið mikla athygli innan bílageirans fyrir að breyta Toyota Prius-bíl svo hægt sé að aka 100 kílómetra á aðeins 1,9 lítrum eldsneytis. Slíkt þætti flestum vel af sér vikið og margir myndu glaðir borga talsvert aukalega fyrir bíl til þess að geta sparað innflutt bensín og útblástur.

Prius-bílar eru venjulega útbúnir NiMH-rafhlöðum (Nickel Metal Hydride) en LTC hefur semsagt skipt þessum rafhlöðum út fyrir háþróaðar líþíumrafhlöður. Aðgerðin mun víst vera einföld, nánast eins og að skipta um rafhlöður í dæmigerðu heimilistæki og að auki er hægt að hlaða rafhlöðurnar í gegnum venjulega heimilisinnstungu.

LTC vonast til þess að bílaframleiðendur opni augun fyrir möguleikunum á betri orkunýtingu með því að nýta sér rafhlöður fyrirtækisins og líklega er Prius einn besti bíllinn til að sýna fram á möguleikana sem eru fyrir hendi þar sem Prius nýtur mikillar hylli hjá umhverfismeðvituðum leikurum og tónlistarmönnum. Prius er því í raun mun stærri en sjálf stærð bílsins og sölutölur gefa til kynna – í það minnsta þegar kemur að umtali.

Heimils:Morgunblaðið