Tími glóperunnar liðinn?

Sala á hefðbundnum ljósaperum, eða glóðarperum, verður bönnuð í Ontario-fylki í Kanada frá og með 2012, og er það liður í víðtækum aðgerðum til að draga úr orkunotkun, að því er yfirvöld í fylkinu greindu frá í vikunni. Með því að koma í veg fyrir notkun glóðarpera á að draga úr raforkueftirspurn um sex milljónir megavatt-stunda á ári.

Þessi orka sem sparast dugar fyrir 600.000 heimili á ári. Stefnt er að því að flúrperur, sem nota um 75% minni orku en glóðarperur, komi í staðinn fyrir allar þær 87 milljónir glóðarpera sem eru í notkun í Ontario.

Fylkisstjórnin mun héðan í frá einungis kaupa sparperur í opinberar byggingar. Laurel Broten, umhverfismálaráðherra fylkisins, sagði bann við glóðarperum draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem samsvari því að 250.000 bílar væru teknir úr umferð.

Ontario er fjölmennasta fylkið í Kanada, en þar eru m.a. borgirnar Toronto og Ottawa. Með þessum aðgerðum fetar fylkisstjórnin í fótspor ástralskra stjórnvalda sem tilkynntu fyrir skömmu að þar í landi yrðu glóðarperur bannaðar frá og með 2010, og var Ástralía fyrsta landið í heiminum sem ákvað slíkt bann.

Glóðarperur hafa lítið breyst síðan Edison fann þær upp fyrir 125 árum. Aðeins um fimm prósent orkunnar sem þær þurfa nýtist til birtugjafar.

Heimild: mbl.is