Toyota selur milljónasta tvinnbílinn

Japanski bílaframleiðandinn Toyota hefur náð þeim tímamótum að selja yfir milljón tvinnbíla frá því framleiðsla á slíkum bílum hófst fyrir áratug. Eftirspurn eftir tvinnbílum hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum eftir því sem umræðan um umhverfismál hefur fengið meira vægi í heiminum. Toyota er nú leiðandi í framleiðslu á umhverfisvænum bifreiðum og fáir hafa tærnar þar sem þeir hafa hælana.

Undir lok síðasta mánaðar fór heildarsala Toyota á svokölluðum tvinnbílum yfir milljónamarkið en þá höfðu selst alls 1 milljón og 47 þúsund bílar af þeirri gerð. Tvinnbílar eru bílar sem bæði eru knúnir bensíni og rafmagni og menga þeir mun minna en aðrar hefðbundnar bifreiðar.

Toyota hóf framleiðsu á tvinnbílum árið 1997 og ári seinna seldust 18 þúsund stykki af slíkum bílum. Árið 2006 seldi Toyota hins vegar rúmlega 312 þúsund tvinnbíla.

Vinsælasti tvinnbíllinn er af gerðinni Toyota Prius en frá því byrjað var að framleiða bílinn hefur hann selst í rúmlega 757 þúsund eintökum. Toyota þykir nú vera leiðandi í framleiðslu á tvinnbílum. Bílaframleiðendur víðs vegar um heim hafa hins vegar smám saman verið að taka við sér. Þannig mun bandaríski bílaframleiðandinn General Motors setja tvær nýjar gerðir tvinnbíla á markað á þessu ári og þá hafa aðrir bílaframleiðendur kynnt svipuð áform.

Heimild: visir.is