Meðalheimili á Íslandi eyðir árlega nokkur hundruð þúsund krónum í orkukaup. Með auðveldum hætti má draga verulega úr þessum kostnaði með því að spara orku í formi hita, rafmagns og olíu.
Þó að við búum svo vel hér á landi að eiga nægar orkulindir í fallvötnum og jarðhita er ekki þar með sagt að ekkert þurfi að spara þær. Með því að nýta betur innlenda orku fáum við meira út úr þeim fjárfestingum sem liggja í orkumannvirkjum landsins. Því betur sem við nýtum þessar auðlindir því meiri verður arðurinn af þeim. Frá og með 1. janúar 2006 var notendum frjálst að kaupa rafmagn af þeim sem þeir kjósa, hvort sem er til atvinnurekstrar, heimilisnotkunar eða annarra hluta. Þetta þýðir að rafmagnsmarkaður er opinn og ætti verð því einkum að ráðast af framboði og eftirspurn. Samkvæmt hefðbundinni hagfræði ætti minni eftirspurn að leiða til aukins framboðs og lægra verðs. Orkusparnaður getur því leitt til lægra orkuverðs sem gefur enn meiri sparnað á endanum.
Innflutningur á orku eins og olíu eykur útstreymi gjaldeyris og hefur neikvæð áhrif á vöruskiptajöfnuð landsins. Þar sem jarðefnaeldsneyti er endanleg auðlind er allar líkur á að verðið hækki til langstíma á meðan aðrir ódýrari kostir verða ekki í boði. Það sparast því mikið fé ef unnt er að nýta orkuna betur og draga þannig úr olíuinnkaupunum. Það er þess vegna allra hagur að spara orku hvort heldur sem hún er innlend eða innflutt.
Spara má orku á ýmsan máta og oft kostar það ekki nema dálitla umhugsun og árvekni.
Hlutverk Orkuseturs Orkustofnunnar er að stuðla að aukinni vitund almennings og fyrirtækja um skilvirka orkunotkun og möguleika til orkusparnaðar.
Verkefni Orkuseturs eru einnig á sviði nýrra orkugjafa og gerð fræðsluefnis.
Copyright © 2023 Orkusetur.is