Umdeildar breytingar á orkumerkingum í farvatninu

Flestir neytendur þekkja vel orkumerkið sem sett er á rafmagnstæki og segir til um hversu sparneytin þau eru.
Breytingar á merkinu hafa verið til umræðu en sífellt fleiri tæki eru í  sparneytnasta  flokknum; A. Neytendasamtök hafa krafist þess að hið vel þekkta orkumerki verði áfram notað en hins vegar verði gerðar strangari kröfur til tækja í A-flokki þannig að einungis sparneytnustu tækin á markaði hverju sinni falli þar undir. Framleiðendur komu fram með þá hugmynd að nota tölur í stað bókstafa. Evrópusambandið hefur nú samþykkt nýja útgáfu af merkinu þar sem búið er að bæta við fleiri A-flokkum; A -20%, A -40% o.s.frv.

Skilja neytendur breytingarnar?

BEUC, Evrópusamtök neytenda, og ANEC,  samstarfsvettvangur neytendasamtaka um staðlastarf, hafa sent frá sér harðorða yfirlýsingu þar sem þessi ákvörðun er hörmuð. Breytingar á merkinu rugli neytendur í ríminu og greinilegt sé að hagsmunir iðnaðarins hafi ráðið för. Ekki hafi farið fram nein könnun á því hvort neytendur skildu yfirhöfuð hið nýja útlit og er þess krafist að slík könnun verði gerð. Ef neytendum gengur illa að skilja nýja merkið verði hið gamla tekið upp að nýju.

Skulu ekki reiða sig á aðstoð neytendasamtaka
Stephen Russel, framkvæmdastjóri  ANEC segist harma hversu mikil áhrif iðnaðurinn hafi haft á ákvarðanatökuna. „Gleymum því ekki“ segir Russel, „að markmiðið með orkumerkinu er að upplýsa neytendur ekki að þjóna hagsmunum framleiðenda“.
Monique Goyens framkvæmdastjóri  BEUC segir að framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins og aðildarríki skuli ekki reiða sig á aðstoð neytendasamtaka þegar kemur að því að kynna hið nýja merki.

Sjá fréttatilkynningu á heimasíðu BEUC