Búnaður
Hefðbundin varmadæla samanstendur af dælubúnaði og leiðslum sem mynda lokað gas/vökvakerfi. Í gas/vökvakerfinu er svokallaður vinnslumiðill sem er ýmist á gas- eða vökvaformi. Í vinnsluhringrás varmadælunnar eru tveir varmaskiptar sem kallast eimir og eimsvali. Til að viðhalda hringrásinni þarf annars vegar þjöppu og hins vegar þensluloka, (sjá mynd):

Lagnakerfi varmadælu. Varmauppspretta er neðst til vinstri á myndinni. Með vökvadælu er varminn leiddur að varmaskipti (eimir eða uppgufari) sem hitar vinnslumiðilinn svo að hann gufar upp við lágan þrýsting. Þjappan efst á myndinni þjappar gasinu saman og það hitnar. Seinni varmaskiptirinn (eimsvalinn eða þéttirinn) losar varma úr háþrýstu vinnslugasinu í neyslu- og ofnavatn en við það þéttist gasið að nýju. Þaðan fer vinnslumiðillinn í gegnum þensluloka þar sem þrýstingurinn fellur og hringrásin lokast.